Færsluflokkur: Bloggar
19.10.2008 | 12:09
Fyrsta færslan - kynning
Aldrei bjóst ég við því að ég myndi fá mér Moggablogg. Ekki miðað við það hvað ég hef blótað moggabloggurum í sand og ösku í gegnum tíðina. En svona er lífið. Maður veit aldrei hvað gerist.
Svona sem fyrsta færsla þá ætla ég bara að kynna mig. Ég heiti Vilhelm Vilhelmsson, er fæddur 1980 og er því 28 ára gamall. Ég er að læra sagnfræði við Kaupmannahafnarháskóla og nýt þess vel. BA-gráðan er innan seilingar og eftir það verður líklegast farið heim til Íslands svo ég geti verið hjá minni heittelskuðu.
Skoðanir mínar á stjórnmálum, samfélaginu, siðfræði og heimspeki mundu víst teljast sem "óhefðbundnar" þó mér finnist þær auðvitað sjálfsagðar og rökréttar. Hugmyndafræðilega séð tengi ég mig oftast við anarkisma, en forðast þó að festa mig of mikið í hugmyndafræðilegar skorður. Ég hef óbeit á þjóðrembu og þjóðernishyggju, kynþáttafordómum og hatri, hómófóbíu, karl- og kvenrembu og dýramismunun (speciesism). Sérstakt hatur ber ég þó til íhaldssemi af öllum toga. Engu að síður lemur gagnrýni mín, líkt og hinna rússnesku níhilista 19. aldarinnar, bæði til hægri og vinstri og ég sé enga ástæðu til þess að hlífa mönnum eða flokkum bara vegna þess að ég hallast á sömu skoðanir og þeir.
Helstu áhugamál mín eru sagnfræði, stjórnmál, heimspeki (siðfræði) og bækur. Skrifin hér munu endurspegla það.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)