Handteknir vegna leikfangabyssa og flugelda

Enn á ný ber Mogginn bansetta þvælu á borð fyrir fréttaþyrsta Íslendinga. Blaðamaðurinn vitnar í grein The Guardian og það er því við hæfi að birta hana hér, svo áhugasamir geti séð hvurs konar rangfærslur og útúrsnúninga Mogginn er að birta:

Guardian

Eins og fram kemur hjá The Guardian fundust ekki "vopn" heldur "imitation" vopn, þ.e. leikfangabyssur. Sprengiefnin voru smá hvellhettur gerðar úr flugeldum. Vissulega getur þetta svosem talist sem sprengiefni en Mogginn lætur þetta hljóma eins og hjá aktivistunum fimm hafi verið staflar af dýnamíti eða þaðan af verra, ekki smá hávaðabombur úr flugeldapúðri.

Það kemur heldur ekki fram á hvaða forsendum fimm-menningunum er haldið en það ætti jú að snerta margar íslenskar taugar því það eru margumræddu hryðjuverkalögin bresku sem leyfa stjórnvöldum að handtaka og halda fólki fyrir að eiga leikfangabyssur, flugelda og "material related to political ideology", m.ö.o. bækur, tímarit eða bæklinga sem fjalla um pólitísk mál. Ótrúlegt að slíkt finnist í fórum stúdenta. Ónei, þvílíkir glæpamenn!

Ótrúleg þessi hystería sem hægt er að vekja upp með því að tilkynna valdsmannslega að "búast megi við ofbeldi" og að "hryðjuverkamenn séu á stjá."


mbl.is Handteknir vegna vopnafundar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Breytingar á stillingum

Upphaflega ætlun mín var að leyfa öllum að kommenta á bloggfærslur mínar án þess að þurfa að staðfesta netfang eða annað slíkt. Það endurspeglaði þá hugsanlega barnalegu skoðun mína að fólk sé fært um málefnalega umræðu og beri einhvern vott af virðingu og skynsemi. Það reyndist ekki rétt hjá mér. Í ljósi þess að í kjölfar fyrstu færslu minnar sem tengd er við frétt komu yfir 20 athugasemdir á nokkrum klukkustundum, sem sumar voru uppfullar af níð, móðgunum, aðdróttunum, niðrandi athugasemdum og fleiru í þeim dúr, hef ég ákveðið að breyta þessum stillingum. Ég nenni ekki að standa í því að lesa endalausan flaum af níðingshætti og persónulegum árásum og aðdróttunum. Við getum verið ósammála og rifist fram í rauðan dauðan en vinsamlegast sýnið smá vott af skynsemi og virðingu.

Þetta er svo mikil þvæla

Þetta er eitthvað það fáránlegasta og þjóðrembulegasta framtak sem ég veit um. Hafa forsvarsmenn þessarar vefsíðu/undirskriftasöfnunar eitthvað velt því fyrir sér af hverju þessum lögum var beitt? Að þúsundir breskra sparifjáreigenda (að ég tali ekki um heilu sveitarfélögin) sáu fram á að glata þarna öllum sínum sparnaði? Eða er þjóðremban svo blindandi í Íslandi í dag að menn eru gjörsamlega ófærir um að setja sig í spor annarra (þ.e. þeirra sem ekki eru sömu þjóðar)? Hvernig hefðu Íslendingar brugðist við (bæði stjórnvöld og almenningur) ef borðunum væri snúið? Ef íslenskir sparifjáreigendur, heilu sveitarfélögin og ýmsar stofnanir hefðu glatað miljörðum vegna þess að breskur banki hefði farið á hausinn og bresk stjórnvöld neituðu að tryggja íslenskar inneignir í þeim banka? 

Já, þetta var að hluta til bara pólitískt bellibragð af hálfu Brown til þess að auka eigið fylgi, já þessu máli hefði verið hægt að ljúka á diplómatískan hátt af hálfu stjórnvalda beggja megin borðs. EN það má ekki gleyma þætti íslenskra ráðamanna í því að þeim möguleika var fleygt fyrir borð. Og þeirri staðreynd að eitthvað varð að gera til að vernda sparifé breskra einstaklinga, stofnana og sveitarfélaga.

Þar fyrir utan er svo stíll herferðar þeirra indefence.is manna illilega litaður af öfgakenndri þjóðrembu og (dare I say it?) rasisma. Þessar myndir, orðræðan sem notuð er ("Do we look like terrorists?" o.s.frv.) gefa til kynna að terrorista sé hægt að þekkja á útliti, sem gefur aftur til kynna að einungis "litaðir" einstaklingar (lesist: múslimar) séu hryðjuverkamenn, að hvítt fólk með ljóst hár geti ekki verið terroristar.

Og af hverju er talað um frystingu íslenskra eigna í Bretlandi sem atlögu að íslenskum almenningi? Af hverju er íslenskur almenningur, sem upp til hópa á engar eignir á Bretlandseyjum, að æsa sig yfir þessu? Ekki tek ég því persónulega þó bresk stjórnvöld frysti eignir einhverja íslenskra auðjöfra, sama hvaða löggjöf þeir nota til þess.

Hvernig væri að einblína á að leysa vandamálin heima fyrir, finna orsakir heima fyrir, sem hægt er að leysa, frekar en að reyna að klína allri ábyrgð á Gordon Brown, einhvern sem hefur ósköp fátt með hið alíslenska, heimaræktaða kreppuvandamál að gera og getur ennþá síður leyst það.


mbl.is Mótmæli vekja athygli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fyrsta færslan - kynning

Aldrei bjóst ég við því að ég myndi fá mér Moggablogg. Ekki miðað við það hvað ég hef blótað moggabloggurum í sand og ösku í gegnum tíðina. En svona er lífið. Maður veit aldrei hvað gerist.

Svona sem fyrsta færsla þá ætla ég bara að kynna mig. Ég heiti Vilhelm Vilhelmsson, er fæddur 1980 og er því 28 ára gamall. Ég er að læra sagnfræði við Kaupmannahafnarháskóla og nýt þess vel. BA-gráðan er innan seilingar og eftir það verður líklegast farið heim til Íslands svo ég geti verið hjá minni heittelskuðu.

Skoðanir mínar á stjórnmálum, samfélaginu, siðfræði og heimspeki mundu víst teljast sem "óhefðbundnar" þó mér finnist þær auðvitað sjálfsagðar og rökréttar. Hugmyndafræðilega séð tengi ég mig oftast við anarkisma, en forðast þó að festa mig of mikið í hugmyndafræðilegar skorður. Ég hef óbeit á þjóðrembu og þjóðernishyggju, kynþáttafordómum og hatri, hómófóbíu, karl- og kvenrembu og dýramismunun (speciesism). Sérstakt hatur ber ég þó til íhaldssemi af öllum toga. Engu að síður lemur gagnrýni mín, líkt og hinna rússnesku níhilista 19. aldarinnar, bæði til hægri og vinstri og ég sé enga ástæðu til þess að hlífa mönnum eða flokkum bara vegna þess að ég hallast á sömu skoðanir og þeir.

Helstu áhugamál mín eru sagnfræði, stjórnmál, heimspeki (siðfræði) og bækur. Skrifin hér munu endurspegla það. 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband